mánudagur, október 24, 2005

Helgin..

.. var alveg ágæt, held ég verði bara að segja það. Á föstudag var farið í vísindaferð til Heklu, þar sem þeir kynntu fyrir okkur rekstur fyrirtækisins sýndu okkur Benz og Golf og gáfu veitingar með öllu saman, þegar líða fór að lokum ferðarinnar var svo dreginn út bíllinn sem var í vinning í happadrætti Stúdentafélagsins og var það stelpa úr viðskiptafræðinni sem var svo heppin að fá afnot af nýjum Golf fram í júlí. Ég verð nú að viðurkenna að ég öfunda hana nú pínu. Nú næst var haldið í partý útskriftarráðs tölvunarfræði og viðskiptafræðinema við HR þar sem ég var í góðum félagsskap bekkjarsystkyna minna Palla, Elínar, Árna, Dodda og Önnsku og voru drykkir teygaðir með miklu jafnaðargeði og spjallað um landsins gagn og nauðsynjar.

Því næst héldu Árni, Doddi og ég í bæinn og rákumst á Ævar á leiðinni og vonuðumst til að hitta hann eitthvað í bænum, eftir mikið kapphlaup milli staða urðum við svo sáttir á að Doddi færi bara á Sólon og við Árni settum stefnuna upp Laugaveginn í leit að fjöri, settumst aðeins inn á 22 til að hvíla okkur á leitinni að fjörinu og viti menn þar leið okkur bara ágætlega og lenntum á spjallið við skemmtilegt fólk, Helenu sem er nýflutt til landsins eftir langa búsetu í Danaveldi og Heiðríkur, (verð að viðurkenna að ég man ekki nafið á honum nákvæmlega), en hann er Færeyingur og er að nema tónlist við LHÍ. Nú það er skemmst frá því að segja að við sátum á efri hæðinni á 22 til 4 og fylgdumst með misfrækilegum viðreynsluaðferðum fólksins sem var statt á staðnum.

Laugardagurinn fór svo að mestu fyrir lítið, var bara engan veginn í stuði til að fara að vinna einhver skólaverkefni, langaði bara að sofa aðeins og slaka á en var kallaður í vinnu. Um kvöldið stóð svo til að taka lífinu með ró og fór ég kanski fullgeist í þeim efnum allavega sofnaði ég í sófanum hjá vinkonu minni yfir kvikmyndaglápi, hún sofnaði reyndar líka þannig að við steinsváfum þarna langleiðina í hádegi.

Sunnudeginum eyddi ég svo í að lesa tutorial um Python til að vinna reikniritaverkefnið mitt í því en held svo að þegar upp er staðið þá verði ég fljótari að klára þetta verkefni í C# þrátt fyrir marga tímasparandi kosti Python sökum þess að ég kann soldið á C# en kann ekki neitt á Python, hins vegar hef ég lofað sjálfum mér að ég á eftir að æfa mig soldið í Python í framtíðinni bara svona til að hafa smá tilfinningu fyrir málinu :D

Jæja nú held ég að það sé komið gott af þessu rausi í bili sendi kanski eitthvað gáfnastykki hér inn seinna í dag, nú eða ekki.

Engin ummæli: