Já ég tók próf á netinu sem á að útlista með nokkrum einföldum spurningum hvað maður á að kjósa í komandi alþingiskosningum. Niðurstaðan kom mér svo sem ekki á óvart nema að því leyti að maskínan vildi meina að það hentaði mér jafn vel að kjósa Vinstri græna og Samfylkinguna sem er bara engan vegin rétt.
Ný-framsóknarstefna Samfylkingarinnar gengur aðallega út á að veiða atkvæði þeirra sem kjósa eftir því hvað er vinsælt að tala um þann daginn og slíkur rekstur á stjórnmálum virkar ekki til lengri tíma.
Einnig kom mér á óvart að maskínan vildi meina að í næst efsta sæti hjá mér ætti að vera Íslandshreyfingin, en það passar ekki alveg við þær skoðanir sem ég hef myndað mér sjálfur en að öðru leyti verð ég að segja að þessi vél er nokkuð vel útfærð hvað mínar skoðanir varðar.
Alltaf gaman að svona framtaki til að lífga upp á lífið og til að treysta óbilandi trú manns á því að maður sé að velja rétt samkvæmt sinni sannfæringu :D
Annars er það eitt sem mér finnst miður skemmtilegt í þessu þjóðfélagi hvað varðar kosningar og það er að fólk sem hefur ekki skoðun skuli frekar sleppa að fara á kjörstað heldur en að skila inn auðum seðlum, (sem reyndar eru taldir með ógildum en það er efni í allt aðra og lengri umræðu) það er nefnilega lýðræðisleg skylda hvers þegns að taka þátt í vali á nýrri stjórn hvort sem það er með því að skila auðu eða kjósa rétt og hér er rétt að sjálfsögðu það sem passar manns eigin skoðunum best.
Góða skemmtun og munið að kjósa um næstu helgi
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli