fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Eurovision hvað!!!!

Í gærkvöldi þá bað vinkona mín mig að finna fyrir sig Eurovision-lag Silvíu Nætur, sem hún hafði heyrt einhversstaðar, ég maldaði smá í móinn enda ekki mikið fyrir Eurovision-lög, eins og vel flestir sem ég þekki geta vitnað fyrir um, og hvað þá að ég nenni að hlusta á eða leita að einhverjum undankeppnislögum, ég hef sagt það áður og ég segi það enn 99% af froðupoppi fer í taugarnar á mér.

Nú til að gera stutta sögu aðeins lengri þá er þessi vinkona nú í dálitlu uppáhaldi hjá mér þannig að ég lét til leiðast, fyrst maður var nú búinn að finna lagið á annað borð þá var nú eiginlega ekki annað hægt en að kanna hvað væri svona æðislegt við þetta lag. Viti menn þetta var þá eftir allt óhljóðblönduð demo-upptaka, þá fannst mér nú eiginlega taka steininn úr. Hvers vegna er maður að eyða púðri í eitthvað óhljóðblandað rusl. Allavega er það mín reynsla af demo-upptökum, sound-ið alveg ömurlegt, hljóðfærin yfirgnæfa hvert annað og erfitt að hlusta á.

Fyrsta sem mér datt í hug þegar lagið hófst: úff yfirkeyrt píanó-sound og og hljóðið mestmegnis úr vinstri hljóðrásinni.

En nei ekki aldeilis, hljóðið bara frekar þétt og fínt, allavega ekki mikið lakara en margt sem maður heyrir fara á geisladiska af svona froðupoppi, lagið greip mig við fyrstu hlustun og textinn er náttúrulega bara óborganlegur. Þessi yfirgengilegi hroki sem Silvía Nótt er þekkt fyrir skín skemmtilega í gegn í viðlaginu "Til hamingju Ísland, með að ég fæddist hér!" Þetta er náttúrulega bara tær snilld og söngurinn hjá Ágústu er rosalega góður og til að byrja með hélt ég að hún væri að syngja gegnum vocalizer þar sem ég hef ekki heyrt í henni áður og hún nær að halda röddinni í karakter allt lagið. En eftir að hafa grafið aðeins komst ég að því að hún sé mjög góð söngkona og sé meðal annars söngkona í hljómsveitinni Ske.

Ég held það sé óhætt að segja að það sorglegasta við þetta lag er að því skuli hafa verið lekið út á netið og því möguleiki að því verði hafnað í aðalkeppninni á þeirri forsendu að það hafi ekki heyrst í fyrsta skipti í forkeppni á Íslandi. Það er allavega mín skoðun að þetta er með betri "Eurosvision-lögum" sem ég hef heyrt í langan tíma og á fullt erindi í keppnina.

Reyndar eins og ég sagði áður þá er froðupopp og Eurovision-tónlist engan vegin það sem ég hlusta á, þannig að það er kannski ekki að marka mitt álit, mér fannst til dæmis lagið hans Páls Óskars alger snilld.

En það er alveg á tæru að Silvía Nótt fær mitt atkvæði á laugardag.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

GÓ SILVÍA NÓTT! =)

Kjartan sagði...

Þokkalega